Saturday, September 16, 2006

Framsöguerindi á ráðstefnu um skipulag Reykjavíkur í apríl 2006
Ráðstefnan bar yfirskriftina:
BLESSUÐ SÉRTU BORGIN MÍN
BORGARAÞING ÍBÚASAMTAKA Í REYKJAVÍK RÁÐHÚS REYKJAVÍKUR 1. APRÍL 2006


Horft til baka – á kvikmyndina Reykjavík í öðru ljósi


Eitt af því sem myndin Reykjavík í öðru ljósi kemur inn á eru hugmyndir um eyjabyggð. Þær hugmyndir komu í rauninni fram fyrir upp úr 1960, hjá ágætum ungum listamanni, Þórði Ben, sem starfar nú í Þýskalandi. En hann var á undan sínum samtíma og hugmyndir hans féllu ekki í kramið. Og menn tala um landfyllingar út í eyjarnar, en við það er hætt á að sú fjara sem er fyrir tapist. Eftir reynsluna af Hvalfjarðargöngum ættu göng út í eyjarnar á sundunum Engey, Viðey, og þaðan upp á Kjalarnes að vera miklu fýsilegri kostur og láta eyjarnar halda sínu sköpulagi. Sjálfur nýt ég þeirra forréttinda að búa hér á Laugarnestanganum við sjó, og veit að í gegnum ári, þá er orðið grænt í Laugarnesinu nokkrum vikum áður en sér í grænt gras upp í Rauðhólum þar sem fjölskyldan á sumarhús. Trúlega spilaði spurning um eignarhald á eyjunum, töluverða rullu hér áður fyrr, að ekki var byggt út í eyjarnar heldur til heiða. En í dag á Reykjavík bæði Viðey og Engey. Reynt hefur verið að stunda veitingarrekstur í Viðeyjarstofu, en gengið erfiðleg, - einfaldlega vegna þess hvers fáir far út í þessa annars ágætu eyju miðað við eftirsótta staði eins og Gullfoss og Geysi eða Blá lónið. Til þess hefur þýfða eyja lítið upp á að bjóða umfram aðrar eyjar við strönd ísland sem skipta hundruðum, ef frá er talinn sorpvargurinn sem er þar sem mýfluguger. En hvers vegna þá að láta mávum og hrossum eftir þetta land sem er nánast í flæðarmáli miðborgarinnar Það var í Viðey sem faðir reykjavíkur Skúli fógeti fékk sér lóð. Viðey má kalla einstæða náttúruparadís! En hvað eyja er ekki náttúruparadís? Og hvaða staður er ekki einstæður? Ég hef ekki komið á nokkurn stað sem er ekki einstæður ef þannig er á hann litið. Og hvers vegna má ekki láta mannfólkinu þessa eyju eftir, - er mannskepnan óþrif á yfirborði jarðar?
Sá rétttrúnaður virðist í tísku í dag að öll mannanna verk skaði og ógni náttúrunni og séu af hinu illa og verja beri alla fegurstu staði landsins “átroðning” - en til hvers eru þessir staðir ef enginn má koma þangað – og hvað er þessi átroðningur annað en fólk, venjulegt fólk sem þarf að verjast! Væri ekki best að flytja allt fólk af landinu til að varðveita það! Handa hverjum? Nú er búið að gera Þingvelli þannig að það er nánast óhugsandi að þar gerist ástarævintýri í dulitlu dragi, menn mega þakka fyrir að fá að tjalda á afgirtu tjaldstæði, og rómantísku leiðinni niður Almannagjá hefur löngu verið lokað til að vernda gjána! – enda fækkar þeim er fara í bíltúr á Þingvöll hlutfallsleg ár frá ári. En til hvers þessa svokölluðu verndun? Hættir Vatnajökull að bráðna ef sett eru lög um að vernda hann? Og hvernig á að refsa jöklinum ef hann fer ekki eftirlagboðinu og heldur áfram að bráðna. Hvar eru þeir bílar og mengunarútblástur sem valdið hefur kulda og hlýindaskeiðum jarðarinnar – var það bílaútblástur sem eyddi risaeðlunum eða felldi risafururnar sem finnast í steingervingum á Vestfjörðum?

Reynið að sjá fyrir ykkur Akurey. Það lægju jarðgöng út í eyna, sem kæmu upp á henni miðri og mynduðu hringtorg efst á eyjunni. Í kringum þetta hringtorg risu 6 háhýsi með ströndina á hina hönd, - þannig að íbúarnir í háhýsunum gætu gengið beint frá húsunum niður í fjöru. Enginn hraðbraut sem ryfi byggðina frá sjónum. Um göngin væri bæði hægt að aka og taka sporbaug sem lægi eftir göngunum og þar sem göngin kæmu upp í landi lyftist sporbrautin upp yfir lágreist húsin, breyttist í ofanjarðarlest sem smíðuð yrði úr áli og gleri. Þannig að lestin lýstist upp á nóttunni eins og hálfgegnsær ljósormur sem teygði sig eftir borginni, ofan við lágreist húsþökin og hefði sínar stoppustöðvar innan hús í þeim örfáu húsum sem eru byggð á hæðina, - á fjórðu til fimmtu hæð, - færi í gegnum húsin við Skúlagötuna upp og yfir í Perluna, áfram upp í gegnum hús Verslunarinnar yfir í Landsvirkjunarhúsið, og þaðan áfram upp á heiðarnar. Ég sé fyrir mér gljáandi ofanjarðarlest sem lyfti fólki í hæðir, en græfi það ekki ofan í jörðina í neðanjarðarlest eða lokaði það inn í bílum föstum í umferðaröngþveiti. Ofanjarðarlest sem gerði bílinn að yfirhöfn sem menn gætu notað eftir geðþótta en væru ekki bundnir af. Ofanjarðarlest sem gerði borgina að borg ólíkra bygginga og byggingaforma þar sem reglugerðir um bílastæði heyrðu fortíðinni til.
En spáum ögn nánar í kvikmyndina Reykjavík í öðru ljósi og þá hvernig samgöngur í borginni væru, ef sýn hennar hefði að einhverju leiti orðið að veruleika, - þá drep ég fyrst niður
á hugmynd sem sett er fram í myndinni, en er nú trúlega um seinan að framkvæma. Hún gerir ráð fyrir að Hringbrautin verði sett í grunnan stokk og látin fara undir Hljómskálagarðinn, á þeim stutta kafla þar sem hún sker Vatnsmýrina frá garðinum.

Rökin fyrir þessu eru þau að með því muni myndast eitt óslitið grænt svæði þvert gegnum borgina frá höfninni á norðurströndinni út Hjómskálagarðinn og eftir Vatnsmýrinni og þar sem flugvöllurinn er í dag, að ströndinni sunnan megin þar sem Nauthólsvíkin og Skerjafjörðurinn taka við. Þá er að sjálfsögðu reiknað með að flugvöllurinn muni færast um set. En komum að því síðar.

Nú hefur Hringbrautin verið færð, einmitt á þessu svæði, og sú sýn sem birtist í kvikmyndinni, orðin ærið miklu fjarri. Hringbrautin hefur breikkað og þekur nú stærra svæði af Vatnsmýrinni en áður, og búið að steypa upp risavaxnar hringsnúnar göngubrýr yfir Hringbrautina sem skipulagsfræðingar halda að fólk muni labba eftir. Yfirleitt sést nú ekki margt fólk á gangi á þessum slóðum – og trúlega er það nú heldur hryssingslegur göngutúr að labba yfir Hringbrautina upp í loftinu, - kannski ekki síst í blindandi slagviðri, sem kallaði hvað helst á slíkt ferðalag, þegar hvað hættulegast er að hætta sér yfir umferðarþungar götur. Reykvíkingar hafa vanist við að nota bílinn sem yfirhöfn, þannig að sá sem ætlaði sér að ferðast um fótgangandi eftir slíkri brú í vetrarhörku gætti trúlega átt það á hættu að verða út.

Í þessu sambandi dettur mér í hug að segja ykkur frá lauslegri rannsókn sem ég gerði ásamt aðstoðarmönnum mínum þegar við unnum myndina, um það hvar fólk vildi búa;
Við spurðum er gott að búa hérna? Og áttum þá við hvort fólki fyndist gott að búa þar sem það bjó, - hvort sem var í Breiðholt, Grafarvogi, Smáíbúðahverfi, Vesturbænum eða í gömlu borginni. Svarið var nær undantekningarlaust já, það er gott að búa hér. En þegar spurt var: Vildirðu búa einhverjum öðrum stað í borginni, þá var það mjög svo ráðandi að menn áttu sér þá ósk að fá að búa nær miðborginni – og þegar spurt var hvers vegna gerir þú það ekki, var viðkvæðið gjarnan: það er svo miklu dýrara eða ég hef ekki enn þá efni á því.
En þarf það að vera svo miklu dýrara? Og vantar virkileg pláss í miðborginni. Er ekki og pláss t.d upp á við? Hvað segir fólkið sem býr í svokölluðum háhýsum í Sólheimunum?
Er það óánægt og eru íbúðirnar í háhýsunum minna eftir sóttar á fasteignasölum.
Svarið sem við fengum á sínum tíma þegar við ræddum við þó nokkuð stóran hóp íbúa í þessum húsum, var að þeir virtust ánægðri og litu síður en svo á það sem ókost að búa hátt uppi, úr því þeir byggju í fjölbýlishúsi á annað borð og þeir fasteignasalar sem við ræddum við þá sögðu að íbúðir í þessu húsum væru eftirsóttar og því eftirsóttari sem ofar kæmi í húsunum. Þetta var fyrir um fimm árum og ég sel þessa lauslegu könnun okkar ekki dýrari en ég keypti hana. En held þó að hún segi okkur nokkuð um það að háhýsi geta verið góður kostur fyrir þá sem það hentar. Kannski ekki síst ungt fólk sem er enn í námi og barnfátt, - og vill miða búsetu sína við annað en reglugerðir um bílastæði og vill leggja ýmislegt á sig til að búa í göngufæri við það sem borgin getur boðið upp á. Og hvað með allt talið um vindsveipa vegna háhýsanna. Eru vindsveipir að gera útaf við fólkið í Sólheimunum?
Það eru borgir í Japan og Kanada sem eru svipað í sveit settar og Reykjavík, fullar af "háhýsum" án þess það sé til vandræða - þvert á móti. Ég veit ekki til þess að íslenskir vindar séu öðru vísi en í öðrum löndum. Þjóðsagan af Horafjarðarmánanum er trúlega að taka á sig nýja mynd. Það er byggðin sem er verið að byggja hér hátt upp á heiðunum í kringum Reykjavík, meir en 100 metra yfir sjávarmáli, sem verður og er þjökuð af vindstrókum og veðravíti. Byggð á hæðina hér niðri í bæ munu öðru fremur veita skjól. Við erum svo ný flutt út úr torfkofum að menn virðast ekki búnir að átta sig á því að búið er að finna upp lyftuna, - er þetta ekki bara klassískur íslenskur heimóttarskapur? Þar að auki eru þessi hús sem við köllum háhýsi engin háhýsi í samanburði við erlendis. Ég vona að menn láti þetta tal um hættu af háhýsum sem vind um eyru þjóta.


Kannski væri hægt að búa til það borgarlíf sem Íslendingar fara erlendis, - til að finna - með því að byggja í miðborginni á hæðina. Eitt af því sem myndin skoðaði voru húsin sem hafa risið í geilinni við gamla útvarpshúsið. Ég veit ekki betur en þau þyki hafa heppnast vel. Þótt þau hafi verið byggð töluvert hærri en upphaflega var ætlað. Og reyndin er sú að eftir að búið er á annað borð að byggja yfir 5 til 6 hæðir, eru menn ekki fyrir neinum, til að skyggja á útsýnið hjá, því sú byggð sem er fyrir er það lágreist. Kannski leifar frá torfbæjunum. Gleymum því ekki að nær allir hæðstu punktar borgarinnar eru hart nær hálfrar aldar gamlir. Og hver er ástæðan, - þær eru eflaust margar, en megin skýringin er að flugvöllurinn hefur haldið borginni niðri. Haldið henni svo kyrfilega niðri, að jafnvel hefur verið hætt að byggja hús í hálfu kafi, og þau ekki reist í þá hæð sem teikningar gerðu ráð fyrir eins og Morgunblaðshöllin gamla og hálfkláraður turn Landakotskirkju bera vott um, - þótt hugsanlega hafi fleiri þættir spilað þar inn í.
En viljum að flatneskjan í miðborginni blívi? Viljum við láta gamalt hernaðarmannvirki sem reist var til bráðabirgða í seinni heimstyrjöldinni, ráða framtíð þessara borgar, eða ætla menn sér að finna fluginu betri og heppilegri stað.
Hugmynd Trausta Valssonar um flytja flugvöllinn út á Lönguskerjum í Skerjafirði, er eiginleg of snjöll til að láta hafa framhjá sér fara án þess að skoða hana rækilega ofan í kjölinn.
Í þeirri áráttu Íslendinga að ræða fremur tittlingaskít en aðalatriði, hafa tækifærissinnaðir pólitíkusar slegið úr og í hvað flugvöllinn varðaði án þess ég hafi nokkurn tímann haft það á tilfinningunni að þeir hefðu kynnt sér málið til nokkurar hlítar.

Væri t.d ekki eyðandi fé í það að fá erlend byggingarverktaka sem hafa víðtæka reynslu af flugvallargerð til að gera úttekt á því, hvort hugmynd Trausta sé framkvæmanleg og þá hvernig? Augljós kostur við þessa hugmynd , sem ekki þarf sérfræðinga til að kanna, er að á skerjunum væri ekki verið að taka land frá neinum, né troða flugvellinum upp á nágranna sveitarfélögin. Það þýðir ekkert fyrir pólitíkusa í Reykjavík að segja flugvöll á Álftanes, eða á Mosfellsheiði - Reykjavík ræður ekki yfir Álftanesi eða Mosfellsheiði. En á skerjunum er ekki verið að taka land frá neinum. Og það sem er kannski meira um vert, og mikið reyndur verkfræðingur tjáði mér, var að sjávarklappir eins og skerin eru óskaundirstaða undir flugbrautir, millu betri en mýri, og það lítið mál sé að koma fyrir öldubrjótum sem myndu verja flugvöllinn fyrir sjógangi, - enda hafi flugvellir verið reistir í Asíu við miklu erfiðari aðstæður hvað sjó snertir.

Nú er verið að reisa nýja flugstöð við fót Öskjuhlíðar sem hefur fengið feluheitið Samgöngumiðstöð. Hafa menn skoðað þessa Samgöngumiðstöð í samhengi við aðrar ákvarðanir, eins og t.d innri leið Sundabrautar sem mun festa Smáralindina og svæðið þar í kring í sessi sem kjarna höfuðborgarsvæðisins.
Í rauninni hafa Reykvíkingar verið plataðir hvað flugvöllinn varðar, aftur og aftur, - borgarstjórn fór meira að segja út í kosningar í mars 2001 þar sem spurt var; á flugvöllurinn að fara burt, eða ekki. Í rauninni hefði átt að spyrja á flugvöllurinn sem verið er að endurbyggja að fara burt?
Og ef spurt yrði í sömu spurningar í dag : á flugvöllurinn sem hefur verið endurbyggður og væntanleg umferðamiðstöð sem er verið að byggja, að fara burt - þetta minnir óneitanlega á Meistara Kjarval, sem hvatti til þess á sínum tíma, að lokið yrði byggingu Hallgrímskirkju sem fyrst, svo hægt væri að átta sig á því hvort ætti að rífa hana, eða flytja hana upp í Árbæ.

Og hvað með kostnaðinn við flugvöll á Lönguskerjum! Hers vegna ekki að losna við fingraför stjórnmálamanna á þessu verki og bjóða einkaframtakinu, - að byggja þennan völl eins og Hvalfjarðargöngin.
Slíkt myndi trúlega lækka kostnaðinn og tryggja miklu fallegri hönnun.
Og hvað með að kalla til erlenda eignaraðilja fyrstu árin eins og hér hefur verið gert í stóriðju? Miðað við stærð bjóða skerin alveg eins uppá að þar verði byggður alþjóðaflugvöllur. Kannski er það bara spurning um að þora að hugsa nógu stórt.

Og vað með hugmyndasamkeppnina um framtíð Vatnsmýrarinnar – er þeim erlendu aðiljum sem að henni koma sagt frá þessu möguleika. Er opnað fyrir þá hugsun um að leggja megi Hringbrautina í stokk undir Hljómskálagarðinn.

Ég minntist áðan á hugmyndir meistara Kjarvals um að flytja Hallgrímskirkju upp í Árbæjarsafn. Kannski er hún í rauninni ekkert fáránlegri, en þær hugmyndir sem hafa myndað og mótað þetta safn. Gömlu húsin af sjárkambinum í Reykjavík, sem eru nú úti á túni hjá bónda. Þá er spurning hvort ekki mætti finna þeim betri stað, og flytja þau burt, því þá myndi losna mikið byggingarland kringum Árbæjar torghúsin, og ef gamla Reykjavík yrði endurreist í Kvosinni í kringum tjörnina og í Hljómskálagarðinum, væru húsin komin sem næst sínu upprunalega umhverfi.
Ein hugmynd er sú að mynda mætti byggð út frá húsi Thor Jensen í Hallargarðinum, og gera um leið þetta gullfallega hús að ráðhúsi Reykjavíkur. Þetta hús yrði samastaður borgarstjóra, þótt skrifstofur borgarinnar yrðu áfram í núverandi ráðhúsi. Thor Jensenhúsið félli vel inn í hússkipanina frá Stjórnarráði, gamla Latínuskólanum þar sem nú er MR yfir í bústað forseta Íslands handan Hallargarðsins við Sóleyjargötu. Slíkt ráðhús væri miklu meir í þeim anda sem einkennt hefur húsakost íslensks stjórnarfars og að ég tali nú ekki um hvað útlit snertir, - þar fara miklir yfirburðir.

Saturday, August 05, 2006

AÐFÖRIN AÐ ÆSKUÁRUNUM.


Ég man þá tíð að námsárangur á lestrarprófum var mældur með skeiðklukku. Því hraðar og því meira magni sem nemandinn gat bunað út úr sér af lesmáli, því hærri einkunnir. Gilti þá einu hvort nemandinn læsi þannig að áheyrilegt
væri eða skilja mætti hvað var lesið. Hraðinn skipti öllu máli. Ég hélt satt best að segja að tími skeiðklukkunnar í menntun þjóðarinnar væri liðinn. En nú virðist engu líkara en hefja eigi skeiðklukkuna til fyrri virðingar, ef marka má boðskap núverandi menntamálaráðherra um "að stytta stúdentsaldurinn".

Og til hvers að stytta hann? Svo fólk verði árinu fyrr ellilífeyrisþegar?
Eru ekki læknavísindin sífellt að lengja lífið í þann endann, við verðum
eldri, lifum lengur og meðalaldur þjóðarinnar fer stórlega hækkandi. Sá tími
sem fólk eyðir sem ellilífeyrisþegar hefur lengst og mun lengjast. Af hverju á þá að fækka æskuárunum og stytta stúdentsaldurinn? Væri ekki nær að lengja hann, og sjá til þess að menn væru almennt betur menntaðir þegar þeir hæfu sérnám í Háskóla?

Hafi ég lært eitthvað í æsku var það mest með þátttöku í félagslífi
skólans, af vinunum og í sumarvinnunni. Og þeir félagar mínir í skóla sem hvað mest hefur kveðið af síðar í lífinu, höfðu flestir vit á því að lengja eiginn stúdentsaldur um eitt eða jafnvel tvö ár; gáfu sér tíma í Herranótt, málfundarfélög, skólablaðaútgáfu, vísinda og listiðkun, en létu námsefnið í skólabókunum mæta hæfilegum afgangi. Það var kallað að falla, - og
reyndist mörgum mikil fararheill.

Í öllum stjórnmálaflokkum er til framagjarnt fólk sem eru svo afspyrnu
duglegt við að lesa skýrslur frá nefndum og ráðgjöfum að horfir til
vandræða. Helsti veikleiki þessara stjórnmálamanna er að þeir
telja sér til tekna að ganga í augu embættismanna og framkvæma sem mest af því sem embættismennirnir vilja. Slíkir stjórmálamenn eru því miður lítið meir en blaðafulltrúar sinna eigin ráðuneytisstarfsmanna, og því miður er engu líkara en þetta eigi sérstaklega við um núverandi menntamálaráðherra. Hægt væri að benda á mörg dæmi um hvernig slíkir stjórnmálamenn hafa unnið meiri og langvarandi skaða á íslensku þjóðfélagi en þeir sem hafa haft vit á því að vera passlega trúgjarnir og gleiðir þegar kemur að skýrslunum og hrífast hæfilega mikið af "já ráðherra".

Og hvaða fagnaðarerindi boða svo þessar skýrslur nefndarmanna? Jú, oftast er vitnað til einhvers í útlöndum. Dregnar fram tölur um að miðað
við hinar og þessar þjóðir sé ýmislegt skelfilega öðruvísi á Íslandi. En
megum við í rauninni ekki þakka fyrir það. Þó ekki væri nema það eitt að enn
er ekki til hér herþjónusta og íslenskt KGB.

Það hafa verið forréttindi að vera Íslendingur og vera laus við margt af því sem þykir sjálfsagt meðal stórþjóða. En nú er svo komið
að ofurhugar stjórnmálanna hamast við að eyða þessum forréttindum og það í
nafni frammfara og hagræðingar, - sem eru ein mest misnotuðu orð tungunnar af skýrslugerðarmönnum.

Ég ætla ekki að draga í efa að með því að lækka stúdentsaldurinn aukist
framleiðni á stúdentum? Og eins megi sanna með tölum að færri ár þýði
hagræðingu í skólakerfinu? En er það þetta sem við viljum? Halda menn að það fólk sem verður einu ári fyrr stúdentar muni eiga auðveldara með að höndla lífshamingjuna og setja sér framtíðarmarkmið? Og hvað rekur kvennfélag sjálfstæðiskvenna til að senda frá sér stuðningsyfirlýsingu við blaðafulltrúa skýrslugerðarmannanna og fagna “nýjum valkosti”? Hver taldi þessu félagi trú um að með tillögunum um lækkun stútentsaldurs væri verið að bjóða upp á nýjan valkost?
Staðreyndin er sú að sá valkostur "að fara ári á undan um einn bekk", hefur alltaf verið til staðar, lægi metnaðarfullum foreldum mikið á. Ég þekki nokkur dæmi þess af eigin raun. Og eitt er víst, sá æðibunugangur hefur fært því fólki litla viðbót við lífshamingjuna, nema síður sé.
Sá valkostur að stytta stúdentsaldurinn hefur alltaf verið
til staðar, - og líka verið hægt að lengja stúdentsaldurinn, og man ég ekki
betur en fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra hafi lengt sinn stúdentsaldur um tvö ár án þess að verða af lífshamingjunni.

Eitt er víst að uppspenntur námsárangur og kúrismi yfir skólabókum skilar
sér ekki í réttu hlutfalli hvað varðar árangur í lífinu, og stundum
þvert á móti. Ég minnist þess ekki að í lífshlaupinu hafi ég heyrt til
frekari afreka þeirra einstaklinga sem dúxuðu sem mest er ég var í skóla og
voru eftirlæti kennara.

Hvaðan er sú pólitíska sýn runnin að líta á nemendur sem
framleiðslueiningar sem verði að troða eins hratt og frekast er kostur í gegnum skóla og út á atvinnumarkaðinn?
Og hvernig má það gerast að vel uppalin
menntamálaráðherra verður smiðvél þessarar aðfarar að æskuárunum og hefur skeiðklukkuna aftur til virðingar. Er ekki kominn tími til að snúa við og fjölga æskuárunum með því að hækka stúdentsaldurinn og lengja þann
yndislega tíma? Gefa æskunni kost á breiðri menntun á sviði þjóðfélagsmála, lista og vísinda, þannig að íslenskir stúdentar hefji háskólanám vel undir það
búnir að velja sér ævistarf og hafi staðgóða þekkingu á þeim heimi sem þeir
lifa í.

Hvers vegna eru við í kapphlaupi við einhverja ímyndaða samkeppni við aðrar þjóðir? Samkeppni sem skýrslugerðarmenn hafa soðið fræðilega saman, og kallar á magn en ekki gæði, kallar á allt það sem velmegandi smáþjóð ætti alls ekki að taka sér til fyrirmyndar?

Hvar er að finna það pólitíska afl sem mun frelsa okkur af skýrslu?
Þetta bréf sendi ég fyrir ári síðan, en ég held það eigi ekki minna erindi í dag:

Um heiftarlegan heyskap

Opið bréf til Borgarráðs Reykjavíkur

Ágæta Borgarráð
Yndislegasta opinberun vorsins birtist mér venjulega út um bílglugga. Það eru fyrstu fíflarnir sem skjóta gulum kollinum upp úr hálffreðnum sverðinum á umferðareyjum borgarinnar og lýsa upp daga, - hvað svo sem ólundarleg veður tauta og raula. Þessi guli litur sóleyjanna og fiflanna er svo hreinn og skær að engu er líkara en sólarljósið hafi sest þar að sjálflýsandi og manni finnst sumarið hljóta að vera komið og fer út á stuttermabol til að kvefast. Er til dýrðlegri blekking!

Nú er hins vegar runnin upp sú tíð að á umferðareyjunum göslast öflugar heyvinnvélar og fast í kjölfarið fygja einkennisklæddir fótgönguliðar. Sóleyjum og fiflum, sem hafa unnið það eitt til sakar að gleðja augu okkar, hefur verið sagt stríð á hendur. Ekki veit ég hvers vegna umferðareyjar borgarinnar verða að líti út eins og valtaðir golfvellir. Ég hef heyrt þá skýringu á hatrinu á fíflunum að þeir breytist í hræðilega ljótar biðukollur og þetta illgresi sé vottur um órækt og sóðaskap.
Vissulega breytast fiflarnir í biðukollur! En nú er fegurðarskin mitt svo frumstætt að fátt veit ég yndislegra en biðukollur: þessa rjúkandi grákolla sem spegla hverfulleika tímans myndrænna en annað blómskrúð. Sólgulir kollar fíflanna og biðukollur í bland við sóleyjar, njóla, hvönn og hrafnaklukkur er fagnaðarundur íslensku flórunnar. Fátt veit ég unaðslegra en dúnmjúk fræ biðukollunnar svífandi um í sumarblænum við flugnasuð og angan geldingahnapps.

En ágæta Borgarráð, því er þetta bréf ritað, að nú óttast ég að hér á Laugarnestanganum birtist eins og síðasta sumar sömu vélaherdeildirnar að herja á ímyndað illgresi. Ég sé enn fyrir mér hóp einkennisklæddra æskumanna vopnaða skellinöðruorfum á bæjarhólnum þar sem eitt sinn stóð Laugarnesbærinn, að eyða hvönn, anískerfli, rabarbara og blágresi. Yfir herdeildunum sveimuðu hrossagaukur og stelkur grátandi yfir örlögum ófleygra unga sinna sem gátu ekki lengur leynst í gróðrinum og urðu auðveld bráð sorpvarginum. Á eftir var tanginn eitt brúnt og sviðið rótarsár

Nú veit ég að þessi framkvæmdagleði í vélaheyskap er ábyggilega vel meint og ekki gerð af illum hvötum, og eflaust eru til “skrúðgarðar” innan borgarmarkanna sem þarfa að slá, þar sem sóley og fífill eru litin hornauga. En ég bið Laugarnestanganum vægðar og á þá ósk heitasta að hann fái að vera griðland fyrir þær jurtir sem vilja vaxa ótilneyddar á Íslandi og eru kallaðar illgresi af garðyrkjufrömuðum.

Ég stíla þetta bréf beint til ykkar ágætu borgarráðsmenn því reynslan hefur kennt mér, að ef ég ber þetta erindi undir embættismenn borgarinnar, þá lendi ég á góðmennum sem segist aðeins vera að hlýða pólitískum skipunum að ofan, og svo togar Einbjörn í Tvíbjörn og Tvíbjörn vísar á Þríbjörn og svo koll af kolli.
Ég skora á ykkur ágætu borgarráðsmenn að slíðra hin bitru pólitísku sverð og ná þverpólitískri samstöðu um að þessi heiftarlegi heyskapur verði stöðvaður, að minnsta kosti hér á Laugarnestanganum. Einhvers staðar verður vonda “illgresið” að eiga sér griðland og það eru fleiri en ég sem kunna að meta "smávini fagra og foldarskart" listaskáldsins góða.

Með góðri kveðju

Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndaleikstjóri og íbúi á Laugarnestanga.
I was having fun by trying to translate Imagine by John Lennon into Spanish

IMAGÍNATE

Imagina que no existe el paraíso,
es fácil si lo intentas,
no hay infierno debajo de nosotros,
arriba, solo el cielo.
Imagina a todas las personas
Viviendo al día...
Imagina que no hay fronteras
no es difícil de hacer,
nadie por quien matar o morir,
ni tampoco religión,
imagina a toda la gente,
viviendo en paz...
Puedes decir que soy un soñador,
pero no soy el único,
espero que algún día te unas a nosotros
Y el mundo será como uno.